Ég sjálf/ur
Söngvar og þulur



Allir hafa eitthvað til að ganga á

Allir hafa eitthvað til að ganga á.
Teygðu fram löppina og lof mér að sjá.

Fíllinn hefur feitar tær, ljónið hefur loppur tvær,
músin hefur margar smáar, en ormurinn hefur ansi fáar.

Allir hafa eitthvað til að ganga á.
Teygðu fram löppina og lof mér að sjá.

Fiskurinn hefur fína ugga, flóðhesturinn engan skugga,
krókódíllinn kjaftinn ljóta, sá er klár að láta sig fljóta.

Allir hafa eitthvað til að ganga á.
Teygðu fram löppina og lof mér að sjá.

Á vængjunum fljúga fuglarnir, á fótunum ganga trúðarnir,
á hnúunum hendast aparnir, á rassinum leppalúðarnir.

Allir hafa eitthvað til að ganga á.
Teygðu fram löppina og lof mér að sjá.

Ólafur Haukur Símonarson.

 


Skugginn

Ég á lítinn, skrýtinn skugga,
skömmin er svo líkur mér,
hleypur með mér úti og inni,
alla króka sem ég fer.

Allan daginn lappaléttur
leikur hann sér kringum mig.
Eins og ég hann er á kvöldin
uppgefinn og hvílir sig.

Það er skrýtið, ha, ha, ha, ha!
hvað hann getur stækkað skjótt,
ekkert svipað öðrum börnum,
enginn krakki vex svo fljótt.

Stundum eins og hugur hraður
hann í tröll sér getur breytt.
Stundum dregst hann saman, saman,
svo hann verður ekki neitt.
Sig. Júl. Jóhannesson

Guð gaf mér eyra.


Guð gaf mér eyra, svo nú má ég heyra,
Guð gaf mér auga svo nú má ég sjá.
Guð gaf mér hendur, svo gert geti meira,
Guð gaf mér fætur, sem nú ég stend á.
Guð gaf mér eyra, svo nú má ég heyra,
Guð gaf mér auga, svo nú má ég sjá.


Guð gaf mér höfuð, sem hugsar og dreymir,
hátt svo að lyftist að vísdómsins lind.
Guð gaf mér hjarta, já hjarta sem geymir
hreina og geislandi frelsarans mynd.
Guð gaf mér höfuð,sem hugsar og dreymir,
hátt svo að lyftist að vísdómsins lind.


Ég lonníetturnar lét á nefið

Ég lonníetturnar lét á nefið,
svo lesið gæti ég frá þér bréfið.
Ég las það oft og mér leiddist aldrei
og lifað gæti ég ei án þín.
Tra la la la la la ljúfa,
tra la la la la la ljúfa,
ég las það oft og mér leiddist aldrei
og lifað gæti ég ei án þín.




Einn lítill, tveir litlir, þrír litlir fingur

Einn lítill, tveir litlir, þrír litlir fingur,
fjórir litlir, fimm litlir, sex litlir fingur,
sjö litlir, átta litlir, níu litlir fingur,
tíu litlir fingur á börnum.

 


Þumalfingur, þumalfingur, hvar ert þú?


Þumalfingur, þumalfingur, hvar ert þú?
Hér er ég, hér er ég, góðan daginn, daginn, daginn.
Vísifingur, vísifingur, hvar ert þú?
Hér er ég, hér er ég, góðan daginn, daginn, daginn.
Langatöng, langatöng, hvar ert þú?
Hér er ég, hér er ég, góðan daginn, daginn, daginn.
Baugfingur, baugfingur, hvar ert þú?
Hér er ég, hér er ég, góðan daginn, daginn, daginn.
Litlifingur, litlifingur, hvar ert þú?
Hér er ég, hér er ég, góðan daginn, daginn, daginn.

Stökur
Að lesa og skrifa list er góð,
læri það sem flestir.
Þeir eru haldnir heims hjá þjóð
höfðingjarnir mestir.

Skriftin mín er stafastór,
stílað illa letur;
hún er eins og krakkaklór,
ég kann það ekki betur.

Góðu börnin gera það:
guð sinn lofa og biðja,
læra að skrifa og lesa á blað,
líka margt að iðja.

Illu börnin iðka það:
æpa, skæla og hrína,
hitt og þetta hafast að,
henda, brjóta og týna.

Viskan með vexti
æ vaxa þér hjá.
Veraldar vélráð
ei vinni þér á.


Stökur

Stígur hún við stokkinn,
stuttan á hún sokkinn,
ljósan ber hún lokkinn,
litli telpuhnokkinn.

Stígur hún við stólinn,
stuttan á hún kjólinn,
sómafögur sólin,
sem er fædd um jólin.

Vel stígur Lalli
innar á palli,
lokulaus er brókin hans
og lítill þinghjalli.

Stígur hann Lalli
við hana Dísu,
hann gefur henni
smáfisk og ýsu.

Vel stígur Lalli
langt inn á palli,
fjórar hefur hann fjalirnar
fótanna á milli,
stígur svo með snilli.

Illa liggur á honum kút,
ekki er það gaman,
þegar hann býr við þunga sút
þá er hann svona í framan.

Sorgbitinn situr hann trítill
við sjálfan sig er að tala.
Vont er að vera lítill
og vera settur í bala.

Dansi, dansi dúkkan mín.

Dansi, dansi dúkkan mín.
Dæmalaust er stúlkan fín.
Voða fallegt hrokkið hár,
hettan rauð og kjóllinn blár.
Svo er hún með silkiskó,
sokka hvíta eins og snjó.
Heldurðu ekki að hún sé fín?
Dansi, dansi dúkkan mín.

Þýð. Gunnar Egilsson


Stökur

Buxur, vesti, brók og skó,
bætta sokka nýta,
húfutetur hálsklút þó,
háleistana hvíta.
    Jónas Hallgrímsson.

Eina húfu á ég mér,
er hún úr prjónabandi.
Veit ég enga vænni hér
á Íslandi.

 

Ég sá sauð suður í mó.

"Ég sá sauð suður í mó",
sagði þumalfingur.
"Því tókstu hann ekki með þér?"
sagði vísifingur.
"Betra er að stela",
sagði langatöng.
"Ég vil fara með þér",
sagði græðifingur.
"Ég vil sitja heima",
sagði litlifingur,
vesalingur.

Stígum við stórum

Stígum við stórum
stundum til grunda,
belg ber ég eftir mér
til barnanna funda.
Hér læt ég skurka
fyrir skáldadyrum.
Vaknaðu Gýgur!
Ei vill Gígur vakna.
Er orðið framorðið?
Sól á milli augna þinna,
sofa máttu lengur
einn dúrinn drengur.

Í loftillum svefnklefa

Í loftillum svefnklefa Sigurður hraut.
Svo drakk hann kaffi, en vildi ekki graut.
Þess vegna varð hann svo visinn og smár
og valtur og þróttlaus og fölur og grár.

Hann vildi ekki lýsi, hann vildi ekki mjólk,
né vera í leik eins og skemmtilegt fólk.
Og þegar hann fór út á fönn eða svell,
flatur á nefið hann margsinnis féll.

Þótt hin börnin öll yrðu hraustleg og stór,
þá horaðist Siggi og varð sléttur og mjór.
Úr skóla í stormi hann staulaðist heim,
en stórviðri tók hann og bar út í geim.


Hann hafði ekki borðað, en horast og lést.
Hann gat sig hvergi við jörðina fest.
Með snjókornum sveimaði Siggi um geim
og svo fauk hann með þeim að dyrunum heim.

Úr sjónum hann braust, í búrið hann þaut
og bað þar um lýsi og haframjölsgraut.
Hann leikur sér úti og vex nú svo vel.
Sá víkingur hræðist ei frost né él.

Þumalfingur er mamma sem var mér vænst og best

Þumalfingur er mamma sem var mér vænst og best.
Vísifingur er pabbi sem gaf mér rauðan hest.
Langatöng er bróðir sem býr til falleg gull.
Baugfingur er systir sem prjónar sokka úr ull.
Litlifingur er barnið sem leikur sér að skel.
Litli pínu anginn sem dafnar svo vel.
Hér er allt fólkið svo fallegt og nett.
Fimm eru á bænum ef talið er rétt.
Ósköp væri gaman í þessum heim,
ef öllum kæmi saman eins vel og þeim.

Þegar barnið í fötin sín fer

Þegar barnið í fötin sín fer
fjarska margt að læra þörf er hér.
Fyrst er reynt að hneppa hnapp,
í hnappagatið loks hann slapp.
Renna lás og reima skó,
reyndar finnst mér komið nóg.
Þetta er gjörvallt í grænum sjó.
Við skulum:
Hneppa, renna, smella, hnýta.
Hnýta slaufu á skó.
Herdís Egilsdóttir.



Unnust þau bæði vel og lengi.

Unnust þau bæði vel og lengi,
áttu börn og buru,
grófu rætur og muru.
Smjörið rann,
roðið brann,
sagan upp á hvern mann,
sem hlýða kann.
Brenni þeim í kolli baun,
sem ekki gjalda mér sögulaun


fyrr í dag en á morgun.
Köttur úti í mýri
setti upp á sér stýri.
Úti er ævintýri.



Hvað kanntu að vinna

Hvað kanntu að vinna,
baggalútur minn?
Þráðarkorn að spinna
og elta lítið skinn.
Kveikja ljós og sópa hús,
bera inn ask og fulla krús
og fara fram í eldhús.