Samfélagsfræði
Hvað segir námskráin?

Þrepamarkmið í samfélagsfræði, 1. bekkur

Sjálfsmynd og félagslegt umhverfi
- skilji mikilvægi fjölskyldu, vina og skólafélaga og gildi þess að vera hluti af hópi
- skilji mikilvægi reglna í skólanum alveg eins og í umferðinni og í samskiptum fólks
- þjálfist í að hlýða reglum í leik og starfi í skólanum
Skóli og heimabyggð
- kynnist skólabyggingunni, skólalóðinni og nánasta umhverfi skólans undir leiðsögn kennara
- þekki nokkur örnefni, kennileiti, sögustaði og sögupersónur í heimabyggð
Land og þjóð
- læri hver þjóðhátíðardagur Íslendinga er, að við eigum þjóðsöng og höfum forseta, Alþingi og ríkisstjórn, viti hvað forsetinn heitir og hvar hann býr og að aðrar þjóðir eiga líka þjóðhátíðardag, þjóðsöng og þjóðhöfðingja
- kynnist nokkrum íslenskum þjóðsögum
- greini samspil manns og náttúru með tilliti til búsetu, atvinnu fólks og myndunar þéttbýlis
- tileinki sér frásagnir af landnámsmönnum og þekki nöfn nokkurra, t.d. úr heimabyggð
Heimsbyggð
- kynnist því að til eru margar þjóðir og mörg tungumál í heiminum
- læri um ólíka siði og venjur í heiminum, t.d. með því að heyra frásögn nýbúa af siðum í framandi landi
Tími
- greini upphaf, miðju og endi í frásögn og geti raðað atburðum í tímaröð, t.d. með hjálp spila og leikja
- þekki árstíðirnar, heiti vikudaga og mánaða og mun á degi, viku, mánuði, ári, áratug og öld
- læri að nota dagatal
- verði handgenginn algengum tímahugtökum eins og fyrir langalöngu, í gamla daga, einu sinni, fortíð, nútíð, framtíð
Rýni
- átti sig á muninum á sannsögu og skáldsögu, t.d. með því að bera eigin reynslu saman við skáldsögu eða ævintýri
- kanni aðstæður og fyrirbæri og skrái athuganir sínar í máli og/eða mynd í sögubók
- læri hvernig upplýsingar um liðna tíð er að hafa í gömlum ritum en að sagan hafi verið til löngu áður en ritmál varð til; kynnist einnig nokkrum dæmum um fornleifar, t.d. beinum dýra og manna
Innlifun og víðsýni
- fái að upplifa söguna í gegnum áþreifanlega hluti, svo sem byggingar, minnismerki, sögustaði í náttúrunni og gamla muni
- öðlist skilning á gildi þess að kynnast fyrri tíð með samtölum við eldra fólk
- kynnist því hvernig sagan er allt í kringum okkur og við erum hluti af henni
Túlkun og tjáning
- fái þjálfun í að flytja mál sitt skýrt og skipulega í heyranda hljóði og hlusta á aðra
- túlki atburði t.d. í leik, myndsköpun, tali, texta, söng og/eða leikrænni tjáningu fyrir bekkjarfélaga og e.t.v. foreldra

Úr aðalnámskrá grunnskóla samfélagsfræði Menntamálaráðuneytið 1999