Stærðfræði
Hvað segir námsskráin
Þrepamarkmið fyrir 2. bekk

Á 2. þrepi er gert ráð fyrir að nemandi
Stærðfræði og tungumál
skrái upplýsingar þar sem háar tölur koma fyrir, t.d. verð í verðlistum
lesi (með aðstoð) texta um stærðfræðileg viðfangsefni og greini um hvað hann fjallar
semji sögur um stærðfræðileg verkefni
túlki niðurstöður útreikninga á grundvelli gagnasöfnunar, munnlega, með skýringarmyndum og á táknmáli stærðfræðinnar
útskýri fyrir kennara og bekkjarfélögum hvernig hann leysir verkefni með aðstoð hluta (t.d. kubba eða talnagrindar) eða myndrænna skýringa
Lausnir verkefna og þrauta
vinni með öðrum að lausn þrauta, ræði um og prófi mismunandi lausnarleiðir og skýri lausnarferli sitt fyrir öðrum
leysi þrautir þar sem beita þarf útreikningum til að leysa vandamál
vinni með tölvuforrit þar sem leysa þarf þrautir
fáist við sambærileg verkefni:
Telja fjölda kubba í rúmmynd eða fjölda leiða í gegnum völundarhús.
7 krakkar bökuðu piparkökur í heimilisfræði. Hver þeirra bakaði 10 piparkökur. Það voru 20 krakkar í bekknum og fékk hver þeirra tvær piparkökur og kennarinn líka. Afgangnum af kökunum skiptu krakkarnir 7 jafnt á milli sín og fóru með heim. Hve margar piparkökur fór hver þeirra með heim?
Röksamhengi og röksemdafærslur
fari í leiki og spil, s.s. lúdó, myllu eða skák, sem reyna m.a. á talnavinnu, rúmfræði, rökhugsun og hugkvæmni
finni út með spurningum hverju er lýst
temji sér að nota þekktar staðreyndir til að álykta út frá
fáist við sambærileg verkefni:
Krakkarnir í 2. A og 2. B ætla í rútuferð. Í rútunni eru sæti fyrir 45 krakka. Í 2. A eru 23 krakkar. Hvað mega vera margir krakkar í 2. B til að allir fái sæti? Við lausn verkefnisins átta margir sig á því að þeir geta nýtt sér að tveir tugir og tveir tugir eru fjórir tugir og að tveir og þrír eru fimm og sjá þannig að svarið er 22.
Tengsl við daglegt líf og önnur svið
vinni með peninga/kennslupeninga, flokki eftir tegund myntar og telji saman ákveðna upphæð
geri tilraunir með skálavog
ræði hugtök tengd hitamælingum, s.s. heitur, kaldur, hlýr, fylgist með veðrinu og lesi hitastig af hitamæli
ræði um tímatal, m.a. um vikur, mánuði og ár
vinni með klukku, bæði talna- og skífuklukku
fáist við sambærileg verkefni:
Setja atburði ársins (jól, páska o.s.frv.) upp á tímaás.
Tölur
áætli fjölda hluta, telji með aðstoð talnagrindar eða sætisgildiskubba og sannreyni ágiskun sína
raði tölum í flokka eftir tilteknum eiginleikum, t.d. oddatölur, tugtölur, tölur sem enda á 5 o.fl.
vinni með talnalínu til að fá tilfinningu fyrir uppbyggingu tugakerfisins
noti vasareikni til að skoða hvernig tölur breytast þegar bætt er við tug, hundraði eða þúsundi
Reikniaðgerðir, reiknikunnátta og mat
leysi verkefni úr daglegu umhverfi sínu þar sem þarf að leggja saman, draga frá, margfalda eða deila til að finna lausn
noti talnalínu til að skoða eðli reikniaðgerða og kanna innbyrðis tengsl þeirra. Hvað gerist þegar lagt er saman, dregið frá? Er sama í hvaða röð tölurnar, sem unnið er með, eru valdar?
skoði hvernig margföldunartöflur mynda talnamynstur út frá endurtekinni samlagningu, t.d. með því að lita tölurnar í margföldunartöflum og athuga mynstrin
kynnist deilingu bæði sem skiptingu og endurteknum frádrætti
þjálfist í að nota mismunandi hjálpargögn við lausnir verkefna, s.s. smáhluti, kubba, talnagrindur, reiknivélar og skýringarmyndir
þjálfist í að nota þekkingu sína á tölum við hugarreikning
fáist við sambærileg verkefni:
Jónas á 220 krónur. Hann langar til að eignast pennaveski sem kostar 800 kr. Hvað þarf hann að eignast margar krónur í viðbót til að geta keypt pennaveskið?
Á skólalóðinni eru fjórar hjólagrindur. Í hverri grind er hólf fyrir 8 hjól. Hve mörg hjól komast fyrir í öllum grindunum?
Á ganginum fyrir framan stofu 5 eru 19 pör af skóm. Hvað eru það margir skór? Við lausn dæmisins geta margir nýtt sér að vita að 20 plús 20 eru 40 og því þarf bara að draga 2 frá. Eða þeir hækka 19 upp í 20, leggja 19 við og draga svo einn frá í lokin.
Mynstur og algebra
skoði og myndi talnamynstur, s.s. hvernig mynstur sléttar tölur annars vegar og oddatölur hins vegar mynda í talnatöflu þar sem tölunum 1-100 er raðað í 10 dálka, 5 dálka o.s.frv.
æfi talnarunur, t.d. með því að klappa og telja um leið en segja bara aðra, þriðju eða fimmtu hverja tölu upphátt
Rúmfræði
skoði lögun hluta og ræði um eiginleika og notagildi
búi til flatarmyndir úr tvívíðum formum
beri saman flatarmál rétthyrninga og margföldun tveggja talna
mæli með stöðluðum einingum, s.s. sentikubbum, og beri saman við mælingar með reglustiku eða málbandi (cm, dm, m)
kanni rúmmál vökva með því að hella á milli íláta og beri saman við upplýsingar um magn á umbúðum
vinni með samhverfur, t.d. í bókstöfum, og athugi hvort speglunarásar eru einn eða fleiri
fáist við sambærileg verkefni:
Hjól, gluggar, veggir, kassar, rör: Hvers vegna eru hlutirnir svona í laginu? Væri hægt að nota þá til þess sem þeir eru notaðir ef þeir væru öðruvísi í laginu?
Tölfræði og líkindafræði
geri töflur og einföld súlurit um áhugamál sín eða annað sem tengist daglegu lífi
taki þátt í umræðum og fáist við útreikninga út frá þeim upplýsingum sem er að finna í súluritunum. Munar miklu á hæstu og lægstu súlunni? Er það mikið eða lítið? Hvað er samtals mikið í tveimur eða fleiri súlum? Ef öllu væri skipt jafnt hvað kæmi þá í hvern hlut?
ræði um líkur á að atburðir gerist
fáist við sambærileg verkefni:
Eru miklar líkur á að það verði rigning á morgun? Er líklegt að við vinnum í lottói ef við kaupum eina röð?
Jóna á tvær systur. Hún á von á litlu systkini. Hvort er líklegra að það verði bróðir eða systir?