Tunglið, tunglið taktu mig
"Tunglið, tunglið taktu
mig og berðu mig upp til skýja". Hugurinn ber mig hálfa leið í
heimana nýja. Mun þar vera margt að sjá, mörgu hefurðu sagt mér
frá, þegar þú leiðst um loftin blá og leist til mín um rifinn
skjá. Komdu, litla lipurtá! Langi þig að heyra, hvað mig dreymdi,
hvað ég sá og kannski sitthvað fleira. Ljáðu mér eyra. Litla
flónið, ljáðu mér snöggvast eyra: Þar er siglt á silfurbát með
seglum þöndum, rauðgull í rá og böndum, rennir hann beint að
ströndum, rennir hann beint að björtum sólarströndum. "Þar situr hún
móðir mín" í möttlinum græna, hún er að spinna híalín í hempu
fyrir börnin sín. "Og seinna, þegar sólin skín", sendir hún þeim
gullin fín, mánasilfur og messuvín, mörgu er úr að velja. Hún á
svo margt, sem enginn kann að telja. "Þar sitja systur". Sá sem
verður fyrstur að kyssa þeirra klæðafald, og kveða um þeirra
undravald, honum gefa þær gullinn streng á gígjuna sína. "Ljúktu
upp, Lína!" Nú skal ég kveða ljúflingsljóð um lokkana þína, kveða
og syngja ljóðin löng um lokkana
mjúku þína. "Þar sitja bræður" og brugga vél, gakktu ekki í
skóginn, þegar skyggir. Þar situr hún María mey, man ég, hvað hún
söng: Ég er að vinna í vorið vetrar kvöldin löng. Ef að þornar
ullin vel og ekki gerir stórfelld él sendi ég þér um sumarmálin
sóley í varpa. Fögur er hún harpa. Um messur færðu fleira, fjólu
og músareyra, hlíðunum gef ég grænan kjól, svo göngum við upp á
Tindastól, þá næturvökul sumarsól "sveigir fyrir norðurpól", en
dvergar og tröll sér búa ból í bergsins innstu leynum og ljósálfar
sér leika á hól að lýsigulli og steinum. Við skulum reyna að ræna
frá þeim einum. Börnunum gef ég gnótt af óskasteinum. "Þá spretta
laukar, þá gala gaukar". Þá syngja svanir í tjörnum, segðu það
börnum, segðu það góðum börnum.
Theodora
Thoroddsen.
|
Þula um tunglið
Bokki sat í brunni, hafði blaða í
munni, hristi sína hringa, bað fugl að syngja. Grágæsa
móðir! ljáðu mér vængi, svo ég geti flogið upp til
himintungla. Tunglið, tunglið, taktu mig og berðu mig upp til
skýja, þar situr hún móðir mín og kembir ull nýja. Þar sitja
nunnur, skafa gulltunnur. Þar sitja systur, skafa
gullkistur. Þar sitja sveinar, skafa gullteina. Þar sitja
freyjur, skafa gulltreyjur. Þar sitja mágar, skafa
gulltágar. Þar sitja prestar, skafa gullfestar. Þar sitja
afar, skafa gullnafar. Þar situr hann faðir minn og skefur
gullhattinn sinn.
|
Tunglið skín á himni háa
Tunglið skín á himni háa, gekk ég út á
ísinn bláa. Þar var kátt á hjöllum hjá dansmönnum öllum; undir
tók svo hátt í hömrum og fjöllum. Þar kom hann Ingimundur í peysunni
bláu, hann fékk mest hólið hjá drósunum smáu. Þar kom hún
Sigrún, hlaðbúin var hún; dansaði hún með einum, en dvergar hlógu
í steinum. Ég sá þá ganga utan með sjónum. Dönsum og
dönsum. Þar kemur hann Guðmundur Grímsson, Þórólfur,
Stórólfur, Þorbjörn og Helgi, Rútur og Trútur og
Rembilátur, Vingull og Kringill og karlinn hann Bjálfi. Ekki vill
hún Ingunn dansa við hann Svein. Annan fær hún ungan mann og
dansa þau á svelli, en tunglið skín á felli. Litla Sigga
lipurtá dansar við Bjarna, sem nú stendur hjá sveinunum
þarna. Karlmannlegur er hann, af öðrum mönnum ber hann, silkin
hennar og sokkabönd sjálfur skal hann leysa; leysi sá er leysa
kann, það er hann ungi
hofmann. Langt ber hann af dansmönnum öllum og ennþá skín tunglið á
fjöllum. Álfar uppi í hlíðum, renna sér á skíðum og stjörnurnar
blika á himninum blíðum.
|