Fjölgreindakenningin

Fjölgreindarkenning Howard Gardners byggir á því að greind mannsins samanstandi af 7 eða fleiri jafngildum greindarsviðum. Þessi svið þroskast mismunandi og á ólíkum tíma hjá hverri manneskju. Þau eru samtengd, þ.e. ef eitt greindarsvið þróast þá þroskast hin. Einstaklingar læra ólíkt eftir því hvaða greindarsvið eru sterkust hjá þeim og þeir bregðast misvel við kennsluaðferðum.
Það er okkar mat að "hefðbundin kennsla" liggi vel fyrir nemendum sem eru með sterka málgreind og góða rök- og stærðfræðigreind. Okkar reynsla sýnir að hún kemur illa til móts við nemendur sem eru einungis sterkir á öðrum greindarsviðum. Fjölgreindarkenning Gardners undirstrikar einstaklingsmun nemenda og mikilvægi þess að koma til móts við þarfir hvers og eins. Jack Edwards (1995)talar um að mikilvægt sé að nota ekki fjölgreindakenninguna til þess að setja stimpla á fólk heldur til að hjálpa þeim að finna hvernig þeir geta best lært.
Howard Gardner skiptir fjölgreindinni niður í sjö flokka sem eru:

  1. Málgreind eða hæfileikinn til að tjá sig, að geta skrifað vel eða talað vel.
  2. Rök- og stærðfræðigreind er hæfileiki til að vinna með tölur, rökfræði og kerfi.
  3. Rýmisgreind, að geta séð hluti fyrir sér, ímyndað sér og séð í huganum
    hvernig hluturinn kemur út.
  4. Tónlistargreind eða hæfileikinn til að skapa og njóta tónlistar.
  5. Hreyfigreind, við notum þessa greind þegar við hreyfum okkur, hlaupum, dönsum eða byggjum eitthvað.
  6. Félagsgreind er hæfileikinn til að eiga góð samskipti við aðra. fá aðra til að líða vel, lesa í líkamsmál annarra og hafa samkennd með tilfinningum
    annarra.
  7. Sjáfsþekkingargreind er hæfileikinn til friðsældar, markmiðssetningar og sjálfsskoðunar. Hún leiðir til þess að við getum skilið eigin hegðun og
    tilfinningar. (Collin and Goll,1992 bls. 19 - 21. Þýðing Björg Vigfúsína Kjartansdóttir)
  8. Nýlega hefur Howard Gardner bætt við einni greind sem hann kallar náttúrugreind
    Hann talar um áttundu greindina við Kathy Checkley í viðtali fyrir  
    Educational Leadership (án árs), Þar segir hann:


    "...náttúrugreind er hæfileikinn til þess að þekkja og flokka plöntur, steintegundir og dýr, þar á meðal kletta, grös og allar útgáfur í plönturíkinu og dýraríkinu. Það getur líka verið að hæfileikinn til þess að þekkja menningarlega verksmiðjugripi, eins og bíla og strigaskó, byggist á náttúrugreindinni…sumir eru frá barnæsku sérstaklega góðir í að þekkja og skilgreina verksmiðjugripi. T.d., við þekkjum öll krakka, 3-4 ára, sem eru betri í að þekkja risaeðlur en flestir fullorðnir. (Guignon, 1998. Þýðing Jóna Björk Jónsdóttir)

Þegar við höfum ákveðið að læra þurfum við að finna hvaða persónulega námsstíl við höfum og hvaða fjölgreindarþætti við notum mest til að tileinka okkur námsefnið.

Það er mikilvægt fyrir kennarann að gera sér grein fyrir að nemendur hans eru allir ólíkir og hann þarf að matreiða námsefnið þannig að það höfði til allra greindarsviða. Lykilorðið er fjölbreytni, þetta á líka við um hugbúnað og vefefni. Jack Edwards hefur tekið saman hvernig hægt er að stilla saman tæknina og greindarsviðin í grein sinni Match Technology to the Intelligence Traits. Hér á eftir fer lausleg þýðing Jónu Bjarkar Jónsdóttur á samantekt hans:


Málgreind

Hæfileikinn til þess að nota orð árangursrík, munnlega eða skriflega.

Þessi greind er vel þróuð hjá sögumönnum, ræðumönnum, stjórnmálamönnum, skáldum, leikritahöfundum, ritstjórum og blaðamönnum.

Nemendur með sterka málgreind hugsa í orðum, læra með því að hlusta, lesa og orðgera. Þeir njóta þess að skrifa; líkar vel við bækur, geisladiska og segulbönd. Þeir muna vel bundið mál, texta eða fróðleiksmola.

Þeir gætu hagnast á að nota ritvinnsluforrit sem bjóða upp á yrtar leiðbeiningar, umbrotsforrit, forrit sem hægt er að tala inná, forrit sem hvetja til ljóðagerðar, ritgerðasmíða. Að nota geisladiska til þess að búa til kynningar, upptökutæki og rafræn fjarskiptanet.

Rýmisgreind

Hæfileikinn til skynja veröldina nákvæmlega og til að koma sinni sýn á framfæri við aðra.

Greindin er mjög þróuð hjá: leiðsögumönnum, hönnuðum, arkitektum, listamönnum og uppfinningarmönnum.

Nemendur með þróaða rýmisgreind: hugsa í myndum, þeim líkar við völundarhús og þrautir. Þeir vilja teikna og hanna hluti, þeim hentar myndir, glærur, myndbönd, skýringarmyndir, landakort og töflur.

Þeir gætu hagnast á að nota myndvinnsluforrit, lestrarforrit sem nota sjónrænar tilvísanir eins og tákn eða litakerfi, forrit þar sem hægt er að nálgast upplýsingar í línuritum, súluritum, landakortum eða skýringarmyndum, svo sem súlurit í töflureiknum, margmiðlunarforrit og rannsóknarforrit (probeware).

Tónlistargreind

Hæfileikinn til að skynja, greina, umbreyta og flytja tónlist.

Greindin er mjög þróuð hjá tónlistarmönnum, tónlistarunnendum og tónlistargagnrýnendum.

Nemendur með þróaða tónlistargreind læra í gegnum takt og laglínu, spila á hljóðfæri, vilja hafa tónlist á meðan þeir læra. Þeir taka eftir órödduðum hljóðum í umhverfinu og læra hluti betur ef þeir eru sungnir, klappaðir eða flautaðir.

Þeir gætu hagnast á að nota forrit sem tengja saman sögur og söngva, lestrarforrit sem tengja bókstafi og hljóð þeirra við tónlist, forrit sem bjóða upp á lagasmíðar. Að búa til kynningar með tónlistardiskum og að nota forrit sem hægt er að syngja með og textinn er sýndur með "karaoke stíl".

Rök- og stærðfræðigreind

Hæfileikinn til þess að nota tölur á árangursríkan hátt og geta rökrætt.

Greindin er mjög þróuð hjá stærðfræðingum, endurskoðendum, tölfræðingum, vísindamönnum, forriturum og rökfræðingum.

Nemendur með þróaða rök- og stærðfræðigreind, færa rök nákvæmlega og rökrænt, leita eftir óhlutbundnu mynstri eða samhengi, líkar við gestaþrautir, rökpúsl, tæknileiki. Þeir vilja nota tölvur til að greina og flokka.

Þeir gætu hagnast á að nota gagnagrunna, töflureikna, þrautaforrit, tölvuforritunarhugbúnað, reikniforrit og margmiðlunarforrit.

Hreyfigreind

Sérþekking í að nota allan líkamann til að tjá hugmyndir og tilfinningar og leikni í að nota hendurnar til að búa til eða umbreyta hlutum.

Þessi greind er mjög þróuð hjá leikurum, látbragðsleikurum, íþróttamönnum, dönsurum, myndhöggvurum, vélfræðingum og skurðlæknum.

Nemendur með þróaða hreyfigreind afla þekkingar í gegnum líkamsskynjun, hreyfast, rykkjast, stappa eða aka sér þegar þeir sitja á stól. Læra með því að snerta, handleika eða hreyfa. Þeim líkar við hlutverkaleiki og skapandi hreyfingu.

Þessir einstaklingar gætu hagnast á að nota hugbúnað sem þarf aukabúnað eins og stýripinna, mús eða snertiglugga, dansmottur, lyklaborðs- og ritvinnsluforrit, hreyfimyndaforrit, forrit sem leyfa þeim að færa hluti um skjáinn og rannsóknarforrit.

Félagsgreind

Hæfileikinn til að skynja og gera greinarmun á skapbrigðum, áformum, ástæðum og tilfinningum annarra.

Greindin getur falið í sér næmni fyrir svipbrigðum, raddblæ og bendingum og einnig getuna til að svara slíkum vísbendingum á áhrifaríkan hátt.

Nemendur með þróaða félagsgreind skilja og bera umhyggju fyrir öðru fólki, eru félagslyndir, læra betur með því að segja frá og vinna með öðrum og eru góðir í því að kenna öðrum.

Þessir einstaklingar hagnast á, fjarskiptaforritum, forritum sem taka á félagslegum málefnum, forritum sem gera ráð fyrir hópkynningum og hópáætlunum, leikjum sem þurfa fleiri en einn leikmann. Að nálgast viðfangsefnið á svipaðan hátt og dagskrágerðarteymi.

Sjálfsþekkingargreind

Er hæfileikinn til þess að þekkja sjálfan sig og aðlagast umhverfinu samkvæmt þeirri þekkingu.

Greindin felur í sér að hafa rétta mynd af hæfileikum sínum og takmörkunum, vera meðvitaður um skapbrigði sín og innri ástæður. Þessi eiginleikar mynda hæfileikann til sjálfstjórnunar.

Nemendur með þróaða sjálfsþekkingargreind, búa yfir sjálfshvatningu, þurfi sitt eigið rólega rými, fara sínar eigin leiðir; læra betur sjálfstætt, vilja leiðbeiningar á sínum hraða, persónuleg verkefni og leiki.

Þeim nýtast, tölvuvædd leiðbeiningarkerfi, fræðsluleikir þar sem tölvan er andstæðingurinn, forrit sem hvetja til sjálfsþekkingar eða byggja upp sjálfsmyndina. Öll þau forrit sem gefa þeim svigrúm til að vinna sjálfstætt, hugstormunar eða þrautalausnahugbúnaður.

Það er okkar skoðun að hugbúnaður og vefefni þurfi að vera fjölbreytt til þess að spanna sem flest greindarsvið. Hver einstaklingur á að geta nýtt sér hugbúnaðinn burt séð frá því hvernig hann lærir best. Einstaklingur sem er með góða rýmisgreind á að geta nýtt sér stæðrfræðiforrit og einstaklingur með góða félagsgreind á að geta nýtt sér tónlistarforrit o.s.frv.



Heimildir:

Edwards, Jack (1995). Multiple Intelligences and Technology. FDLRS/TECH, Melbourne, FL http://www.firn.edu/~face/about/dec95/mult_int.html (síðast skoðað 16.06.2001).

Rose, Collin & Goll, Louise (1992). Accelerate your Learning. A world of opportunity in your hands. Action handbook. Unwin Brothers Limited. England.

Guignon, Anna (1998). Gurriculum: Multiple Intelligences: A Theory for everyone. Education World. http://www.education-world.com/a_curr/curr054.shtml (síðast skoðað 18.06.2001)

Ítarefni

Greindarsviðin eru samtengd þannig að ávinningur á einu sviði bætir þá líka á öðru. Á vefslóðinni hér á eftir er að finna yfirlit yfir greindarkenningu Gardner, þýtt af Erlu Kristjánsdóttur; http://www.ismennt.is/vefir/fjarnogk/Nogksam/Gardner/greind.html

Hún hefur einnig þýtt gátlista fyrir fullorðna til þess að finna út á hvaða greindarsviði þeir eru sterkastir; http://www.ismennt.is/vefir/fjarnogk/Nogksam/Gardner/gardnerkonnun.htm

Alick, Dave (1999). Integrating Multimedia and Multiple Intelligences to Ensure Quality Learning in a High School Biology Classroom.

Í efnisyfirlit                                                                                     Næsta síða


© Björg Vigfsúína Kjartansdóttir - Jóna Björk Jónsdóttir - Kirsten Lybæk Vangsgaard
Síðast 31.07.2006


Efst á síðu