Sjónræn skynjun
Hér verður fjallað
um sjónskynið bæði líffræðilega
og skynjunarlega. Við skoðum uppbyggingu augans og veltum fyrir
okkur skynjun á dýpt, hæð og fjarlægð.
Við látum sjónskynið blekkja okkur auðveldlega
og er þessum blekkingum gerð nokkur skil.
Markmiðið með því að afla sér upplýsinga
um augun á líffræðilegan hátt og skoða
sjónskynið er að öðlast þá þekkingu
sem þarf til að geta nýtt sér sjónina.
Eins að átta sig á hvernig sjónin virkar og hvernig
við sjáum hlutina fyririr okkur til dæmis á skjánum.
Vitneskjan um hvernig augað starfar auðveldar okkur að setja
upp vefsíður og útbúa námsefni sem kemst
vel til skila til notenda.
Uppbygging augans.
Augun eru mikilvæg skynfæri í rannsóknum og
uppgötvunum manneskjunnar. Augun eru kúlulaga um 25mm í
þvermál hjá fullorðnum einstakling. Í hvoru
auga er augasteinn sem er breytanleg linsa. Þegar ljósgeislarnir
berast inn í augað í gegnum glæruna, brotna þeir
í augasteininum og falla á sjónuna sem þekur
augað innanvert og hafna sem skörp mynd á sjónunni.
Í sjónunni vekja ljósgeislarnir taugaboð sem
berast eftir sjóntaug til heilans þar sem þau eru túlkuð
í mynd. Heilinn fær sendar tvær myndir eina með
hvoru auga sem hann gerir örlítinn greinarmun á. Þessi
litli greinarmunur veldur því að við skynjum fjarlægð
og dýpt.
Til að ekki berist of mikið ljós inn í sjónuna
dregst sjáaldrið saman, en sjáaldrið víkkar
þegar skyggir til að fá nóg ljós inn á
sjónuna. Lithimnan er það sem stýrir vídd
sjáaldursins. (Sigríður Harðardóttir, 1994)
Mynd 1
Það eru þrjú
pör augnvöðva sem hreyfa augað og önnur þrjú
pör sem hreyfa augnknöttinn sem gerir einstaklingnum kleift
að horfa ýmist upp, niður eða til hliðanna t.d.
þegar barn er í tölvunni og fylgir eftir hlut á
hreyfingu eða þegar það er að lesa. Mynd 2 Augnvöðvar
sýnir hvernig vöðvarnir liggja. (Sigríður Harðardóttir,
1994 bls. 34)
Mynd 2
Þar sem sjóntaugin
liggur út úr auganu er blindblettur augans sem er ekki með
ljósnæmar frumur. Þegar mynd 3 Blindblettur augans
er skoðuð er hægt að finna blindblett augans. Til að
sjá blindblettinn í eigin auga, þarf að prenta
myndina út og halda henni í seilingafjarlægð.
Vinstra auganu er lokað og horft er með því hægra
á eplið. Með því að færa myndina
afar hægt fram og til baka hverfur appelsínan, en það
bendir til að myndin af appelsínunni hafi fallið á
upptök sjóntaugar hægra augans.
Mynd3
Blindblettur
(Muller,1967)
Í sjónunni
sem þekur augað innanvert eru um 120 miljónir stafa og
um 6 miljónir keilna. Keilurnar eru flestar aftastar í auganu
en þar eru stafirnir fæstir. Ljós sem fellur á
keilurnar vekur taugaboð í þeim. Keilurnar eru þrennskonar
og greina mismunandi liti. Stafirnir eru ljósnæmari en greina
ekki liti. Ljósskynfrumur mannsaugans eru því tvennskonar,
stafir og keilur, þar sem við lifum í tvennskonar sjónheimi,
í heimi dags og nætur. Keilurnar eru til könnunar í
björtu ljósi en stafirnir eru fyrir dauft ljós. Það
má líkja mun stafanna og keilnanna við svart/hvíta
filmu eða litfilmu. Þannig að í birtunni eru keilurnar
notaðar og sést allt í lit en í rökkrinu
notast stafirnir og sést svart/hvítt eða mismunandi
grátt þar sem litirnir hverfa í myrkrinu.
Ljósmagnið er ekki það eina sem ræður hvernig
tiltekinn hlutur sést, liturinn skiptir einnig miklu máli.
Keilurnar skynja best hinn gulgræna hluta litrófsins, en
stafirnir eru næmastir á blágræna geisla, þótt
þeir skynji þá aðeins í svörtu og hvítu.
Þessu til skýringar má segja að þegar maður
sér rautt eða blátt blóm sem virðist vera
jafn ljós að deginum, virðist það ekki í
myrkri. Þá er eins og bláa blómið sem stafirnir
skynja vel sé mun bjartara en rauða blómið sem sýnist
vera svart, því keilurnar sem skynja rauða litinn geta
ekki starfað í myrkrinu og stafirnir eru næstum ónæmir
á rautt.
(Muller,1967)
Breytingin frá dagsjón
til nætursjónar fer venjulega hægt fram, er dagsbirtan
dvínar. Á vissum tíma í rökkrinu starfa
bæði keilurnar og stafirnir samtímis, en hvorugt með
fullri virkni. Það líður nokkur tími áður
en augað getur skynjað nokkurn hlut í myrkri.
Með þessu sést hversu mikilvægt er að gæta
að lýsingu í vinnu umhverfi leik- og grunnskóla.
Það þarf að gæta þess að augun fyllist
ekki glýju og ofbirtu eða þreytist af því
að kiprast saman í rökkri vegna rangra lýsingar
á meðan nemandinn er að vinna.
Góð sjón er komin undir því að ljós
brotni hæfilega í glæru og augasteini og falli sem
skörp mynd á sjónuna. Augu þeirra sem eru fjarsýnir
brjóta ljósið ekki nægilega, vegna þess
að þau eru of flöt, og mynd af nálægum hlutum
verður skörp rétt aftan sjóunnar.
Hins vegar brjóta augu nærsýnnar manneskju ljósið
of mikið, vegna þess að augun eru of kúpt. Gleraugu
eða linsur geta leiðrétt ljósbrot augans þannig
að skörp mynd falli ávallt á sjónuna. (Muller,
1967)
Þessu til skýringar
er mynd 4 Nærsýni og fjarsýni hún sýnir
mun á hvernig fjarsýnir sjá og nærsýnir.
Fremri myndin er skynjunin og sú aftari er þegar búið
er að laga sjónina með gleraugum eða linsum.
Mynd 4
Nærsýni
og fjarsýni
Mynd
5 Hvernig sjá nærsýnir og hvernig sjá fjarsýnir
er til að gera grein fyrir hvernig einstaklingar sjá sem hafa
þessa sjóngalla. Börn þurfa oft meðhöndlun
við svona augngöllum.
Skynjun á víddum.
Skynflötur augans, sjónan
hefur aðeins tvær víddir. Einstaklingurinn skynjar víddir,
dýpt, breidd og hæð eftir því sem sjónreynsla
þess þroskast. Þannig sér hann dýpt umhverfisins
eða hlutarins og getur ákvarðað stöðu, fjarlægð
og stærð þeirra, því betri sjónreynslu
sem einstaklingurinn fær verður ákvörðunin tekin
af meiri öryggi og nákvæmni. Þessa sjónreynslu
getum við merkt þegar nemendur eru orðnir þjálfaðir
í tölvulæsi.
Sjónsviðið er afmarkað, vegna stöðu augnanna
og takmarkaðs hreyfanleika þeirra. Þessi takmörkun
sjónsviðsins veitir því hugboð um staðsetningu
hluta miða við líkama.
Sjónsviðið skiptist í efri og neðri hluta, og
einhverskonar sjóndeildar hringur er fyrir augunum, hvort sem það
er markalína himinsins, jarðarinnar, gólfsins eða
veggja. Einnig skiptist það sem við sjáum í
forsvið og baksvið. Hugurinn skiptir þannig hverri einustu
sjónmynd, sem fyrir augu ber.
Augun vinna saman úr þeim boðum sem þeim berast.
Því verða þau að stilla sig saman og er það
nefnt tvíaugnasjónamið.
Bilið milli augnamiðjanna er ca. 6-7 cm, svo þau miða
ekki nákvæmlega í sömu línu. Ef hægri
hendi er haldið 30 cm fyrir framan nefið, þannig að
þumallinn snýr að andlitinu, sést höndin
í þremur víddum, lófi, handarbak og handajaðar.
Ef hægra augað er lokað, sést meira af lófanum
og hnúarnir hverfa að mestu. Ef horft er með hægra
auga og vinstra lokað þá hverfur lófinn, hnúarnir
sjást nú vel. Þótt myndirnar frá báðum
augum renni saman, haldast þær samt nægilega til að
geta skynjað dýpt og fjarlægð hluta. (Muller, 1967)
Truflun sjónskynjunar.
Nú verður skoðað
hvernig börn og fullorðnir skynja misjafnlega það sem
fyrir augu ber og hvernig sjónbörkurinn lætur truflast.
Einnig hvernig listamenn fást við víddir, breidd, hæð
og dýpt.
Samstillingar augnanna eru
alveg ómeðvitaðar og sjónlínuhluti heilans
virðist vita með hvoru auganu hver heildarmynd á að
sjást.
Hægt er að gera tilraun með því að halda
5 cm hólk úr pappír (í þvermál)
og 30 cm lengd, fyrir framan augað og beina honum að logandi kerti
hinum megin í herberginu. Hendinni er haldið við hlið
fjarlægari enda hólksins, með lófann að athuganda,
þannig að höndin ber milli kertalogans og hins augans.
Þá sér athugandinn greinilega hönd sína
með gati í lófa og flöktandi kertaljós gegnum
gatið. Ef haldið var fyrir enda hólksins hverfur kertið,
en höndin ein sést. Þessi tilraun varpar ljósi
á það hvernig heilinn setur sjálfkrafa saman tvær
myndir, sína frá hvoru auga.
Nefið er mest áberandi í sjónsviðinu, en
einstaklingurinn gerir sér ekki grein fyrir því nema
að hugsa sérstaklega um það. Þessi mynd af
nefinu er alltaf með og er einskonar ósjálfráð
grunnlína eða viðmiðun sem aðstoðar við
að meta fjarlægðir. Sem dæmi má nefna ef það
kemur bóla á nefið þá truflar hún
sjónsviðið og einstaklingurinn sér ekkert annað
en bóluna.
Bilið milli augnanna
skynjar stuttar fjarlægðir, því nær sem hluturinn
er, því betur skynjast dýpt hans. Hægt er að
ná fram dýptarskynjun í tölvugrafík með
því að hafa grafíkina misstóra. Það
sem maður vill að skynjist sem nálægt er haft stórt
en hlutir sem maður vill hafa í fjarlægð hafðir
minni. Til að skýra þetta eru eftirfarandi dæmi
tekin úr bókinni Ljós og sjón:
Fyrst má nefna að til að fá fjarlægð í
teikningar eru þær gerðar t.d. með húsbyggingum
langt undan eða landslagi sem er í loftmóðu. Litir
útjaðra fjalla sem eru í fjarlægð eru mýktir
og markaðir óskýrum línum. Bjartviðri er
táknað með skörpum útlínum fjarlægra
fjalla. Litirnir breytast með fjarlægð. Leonardó
da Vincí listmálari ráðlagði málurum
að til þess að gefa til kynna breytileika í fjarlægð
húsa, sem virðast standa í röð, á að
mála fremsta húsið í réttum litum, en
mála hin fjarlægari óskýrari og blárri.
Í öðru lagi má nefna að því hærra
upp sem hlutur er málaður á málverk því
fjarlægari virðist hann vera. Skýringin er sú
að náttúrulegt umhverfi einstaklings og sjónstefna
augans, sjóndeildahringurinn sést alltaf ofar en landið
sem staðið er á.
Í þriðja lagi, ef litið er niður á hlut
sýnist hann í minna lagi, ef litið er upp á hlut
sýnist hann stór. Þessi atriði er gott að
hafa í huga þegar unnið er við hugbúnaðar
gerð. Hér er dæmi um leik sem nýta fjarlægðarskynið.
Í Ljós og
sjón er einnig bent á að víddarsjón
og fjarlægð er hægt að túlka á fleiri
en einn veg. Ef upp kemur ágreiningur um þessi mál
er talað um sjónvillu, sem er flókin. Til dæmis
er hægt við að vanmeta stærð hringa, en ofmeta
lengd beinna lína, eins og mynd 7, Hatturinn, sýnir. Barðið
á hattinum er jafn langt og strompurinn sem situr á börðunum,
en þegar við sjáum myndina höldum við að
strompurinn sé lengri. Við myndum ekki ruglast ef barðið
væri töluvert þykkara.
Mynd 7
Misreikningur á
stærðarhlutföllum. Hatturinn sýnist miklu
hærri en hann er breiður.
Hæðin er alveg jöfn barðavíddinni. Strompurinn
situr á börðunum, svo þau sýnast
mjórri en þau eru. Börðin eru þunn
enn strompurinn er mikill um sig.
(Muller,
1967)
|
Sjónblekking er einnig
gaman að velta fyrir sér. Línurnar eru beinar en þær
virka ekki beinar þegar horft er á þær. Annað
parið virðist gliðna og hitt parið dragast saman, skálínurnar
liggja þannig að úr verður sjónblekking.
Mynd8
(Muller, 1967)
Þessar samhliða
lóðréttu línur virðast fjarlægjast
(vinstri myndin) en nálgast hvor aðra (hægri myndin),
eins og hjólbeinóttur maður. Strikin draga athygli augans,
fráhverfu línurnar til vinstri draga augað út
á við ,svo að bilið milli línanna sýnist
gleiðara í miðju en það er í raun. Og
strikin aðhverfu hafa áhrif í öfuga átt.
Það þarf
að vita hvernig augað starfar við allar aðstæður
og ekki er talið rétt að líta á skynjun annars
vegar sem "sjónvillur" eða "réttar skynjanir".
Með sjónskynjun hefjast margskyns viðbrögð, það
kemur ákveðin mynd fram í auganu. Augað nemur litla
tvívíddarmynd sem breytist vegna flókinna tilfæringa
í þrívíddarmynd í fullri stærð.
Sjónbörkurinn aðgreinir á svipstundu boð frá
sjónunni, áður en hann lætur boðin í
"minnissjóð". Þar verða þau að
sjónmyndum sem sýna hvernig og hvar hlutir eru og hvaða
afstöðu þeir hafa til annarra hluta á sjónsviðinu.
Til að fá rétta mynd af hlut styðst heilinn við
gamla reynslu. Honum er tamt að sjá hlutinn í réttri
stærð. (Muller,1967 bls. 150)
Þessu til skýringar er mynd 11 - Skipið. Þegar
við horfum á hana sjáum við stórt skip, en
það er í raun lítið. Í skipinu er maður
og þá sést að þetta er ekki skip í
réttum hlutföllum miðað við það sem
minnissjóðurinn hélt heldur blekking.
Mynd11
Engir tveir einstaklingar draga sömu ályktun af öllum
þeim sjónmæli-kvörðum sem heilinn er stöðugt
að útskýra. Ferlið er breytilegt hjá einstaklingum
og er kallað sjónskynjunarvenja.
Það má bera sjónvenjuna saman við málvenjur
einstaklinga. Sumir nota oftast hversdagsleg orð, en aðrir vanda
málfar sitt. Þannig taka sumir vel eftir því
sem þeir sjá í kringum sig en aðrir taka lítið
eða sjaldan eftir umhverfi sínu.
Hermann A. Witkin gerði athugun á "sjónbundnum"
einstaklingum og "sjónfrjálsum" einstaklingum.
Sjónbundnir einstaklingar eru þeir sem sjá heildarmynd
en eiga erfitt með að greina einstök atriði úr.
Sjónfrjálsir eru þeir sem eiga auðvelt með
að greina einstök atriði frá öðrum. (Mueller
og Rudholph, 1967)
Athuganir hans bentu til að flest börn, einkum hin yngri, séu
sjónbundin sem skynvenjur. Af fullorðnu fólki voru karlar
að jafnaði sjónfrjálsari en konur.
Sjónskynjun virðist tengd félagslegum og sálfræðilegum
aðstæðum. Fólki af mismunandi menningum og þjóðerni
var fengin mynd í hendur og voru Eskimóaveiðimenn fljótastir
að leysa þrautina, Þar sem sjónskyn þeirra
er vel þjálfað til að sjá hluti sem falla
inn í umhverfið eins og t.d. ísbjörn í fjarska
í snjó og ís. (Mueller 1967 bls. 161)
Mynd 12 Felumynd er til athugunar á hvort einstaklingur er sjón-bundinn
eða sjónfrjáls. Sá sem er sjónfrjáls
sér af hverju myndin er, en sá sem er sjónbundinn
sér ekki af hverju myndin er.
Mynd 12
Hér látum við
staðar numið vangaveltum okkar sjónskynjun og líffræði
augans.
Heimildaskrá:
Hilgard,Ernest R., Atkinson,Rita L. og Atkoinsson,Richard C.(1979). Introduction
to psychology. New York. Harcourt Brace Jovanovich, Inc.
Hörður Þorgilsson
og Jakob Smári (Ritstjórar). (1993). Sálfræðibókin.
Reykjavík. Mál og Menning.
Kristensen, Jane & Christensen,
Jörgen Riber. (1989). Myndirnar tala. Reykjavík. Mál
og menning.
Krech,David, Crutchfield,Richard
S. & Livson,Norman (1974). Elements of Psychology. New York,
Alfred A. Knopf.
Leach, Penelope (1982). Barnið
okkar. Reykjavík. Iðunn.
Muller Corad G. & Rudolph,Mae.
(1967). Ljós og Sjón. Reykjavik. Almenna bókafélagið.
Rannveig Löve. (1987).
Sjón. Reykjavík. Ísafold.
Sigríður Harðardóttir
& Dóra Hafsteinsdóttir (Ritstj.), 1994. Fróðleiksnáman
alfræði unga fólksins. Reykjavík. Örn
og Örlygur.
Snæfríður Þóra Egilsson & Þóra
Leósdóttir. (1997). Leikur og iðja. Reykjavík.
Bókaforlagið Una.
Þóra Ólafsóttir. (1996). Ekki er allt sem
sýnist Ljós tilraunir í náttúrufræði.
Reykjavík. Námsgagnastofnun.
Myndbönd:
Ég er augað í Jóa. (Án árs).
Námsgagnastofnun, fræðslumyndbandadeild, Reykjavík.
Ofurnæm Skynjun
1. Hluti (Án árs) Námsgagnastofnun, fræðslumyndadeild.
Reykjavík
Í
efnisyfirlit
Næsta
síða
|