Barnamenning - stafræn barnamenning.


Til að öðlast betri skilning á hugbúnaði fyrir börn ætlum við að skoða hugtökin barnamenning og stafræn barnamenning. Við höfum kosið þá leið vegna þess að það er álit okkar að tölvur og tölvuleikir séu stór hluti af barnamenningu í dag. Skoðun okkar hefur mótast út frá því að horfa í kringum okkur og sjá hversu stór þáttur tölvurnar eru í lífi barna.
Við ætlum ekki að rekja sögulegt yfirlit barnamenningarinnar í heild en ætlunin er að skilgreina og móta hugtökin í tengslum við verkefnið okkar.

Stöldrum við hugtakið menningu og hvernig við skilgreinum það. Samkvæmt Orðabanka íslenskrar málstöðvar er menning:

"rækt einstaklinga við andleg og listræn viðhorf umfram hin hagrænu ein saman, háttprýði í framkomu, þekking á arfi kynslóðanna, gaumgæft mat á listum og bókmenntum, ræktarsemi við gæði og fegurð náttúrunnar, og skynsamlega traustar skoðanir á lífinu". (Ordabanki íslenskra málstöðvar)

Okkar skilgreining er að menning sé allt það sem snertir manneskjuna, hvort sem það er menntun, arfur eða siðfágun hennar.

Barnamenning.

Barnamenning er víðtækt hugtak. Til að skilgreina hugtakið barnamenning verðum við að kafa dýpra. Í fyrsta lagi er hægt að tala um barnamenningu sem formlega hefur verið sköpuð fyrir börn af fullorðnum. Dæmi um slíka menningu sést í sígildum miðlum: barnabókum, barnaleikritum, tónlist, bíómyndum, sjónvarpi, myndböndum, tölvuleikjum, leikföngum, sælgæti og auglýsingum. Mjög mikilvægt er að hafa í huga að þegar verið er að ræða um barnamenningu sem er sköpuð af fullorðnum er mjög oft verið að hagnýta sér börnin (Montgomery, 1996). Börn eru óneitanlega stór hluti af neytendamarkaðnum í dag. Sem dæmi má t.d. nefna Disneymyndirnar Alladín, Tarzan og Konung Ljónanna, fyrir yngri börn en einnig Tomb Raider fyrir eldri börn, og þá fjárhagslega hagnýtingu sem hefur farið á undan og í kjölfari þessara mynda. Einnig má nefna Pókemon- fyrirbrigðið þar sem söluaðilinn er að hagnýta sér menningaheim barna á lymskulegan hátt.
Í öðru lagi er hægt að tala um barnamenningu þar sem börn og fullorðnir skapa barnamenningu í sameiningu og sést það best í íþróttafélögum, skátum og annarri félagsstarfsemi.
Í þriðja og síðasti lagi er talað um barnamenningu þar sem börn skapa fyrir börn. Dæmi um slíkt sést best, samkvæmt Flemming Mouritsen (1998), í leikjamenningu barna í þeim greinum sem snertir tjáningu í sígíldum skilningi t.d. söngvum, bröndurum, þulum og rími.
Mouritsen segir enn fremur að hæfileikar barna til að samlaga margs konar miðla, t.d. sjónvarp, tölvur og Internet, að menningu sína, hafi þau áhrif að börn fara að nota miðlana og tjá sig með notkun þeirra samkvæmt reglum og samskiptaformi sem eru í gildi í barnamenningunni.

Stafræn barnamenning.

Börn, fædd 1979 eða síðar, í hinum vestræna heimi eru oft skilgreind sem Net-kynslóðin. Þau eru fædd inn í samfélag þar sem tölvur eru ríkjandi á mörgum sviðum. Í heild hefur það haft í för með sér að þau hafa tileinkað sér tölvur og tekið þær inn í menningu sína sem sjálfsagðan hlut. Á hinn bóginn hafa fullorðnir aðlagað sig að tölvutækninni, þeir einbeita sér í ríkari mæli að tækninni meðan börn sjá ekki tæknina en nota hana í sína þágu. Þau leika sér, búa til heimasíður og hafa samskipti við jafnaldra um efni sem þau hafa fundið á Netinu (Tapscott,1998). Þessi tileinkun mótar einnig bil milli kynslóða þar sem börn í fyrsta skipti hafa yfirráð á ákveðna sviði vegna meiri þekkingar og börn taka í sumum tilfellum að sér að kenna foreldrum og fullorðnum á tölvutæknin. Þetta yfirráð sést einnig í skólakerfinu þar sem nemendur í sumum tilvikum eru að kenna og aðstoða kennara.

Þegar við, sem kennarar, skoðum barnamenningu eins og hún er í dag er það skoðun okkar að barnamenning og jafnvel leikjamenning (sem skilgreinist sem hluti af barnamenningunni) mótist að hluta til af fullorðnum. Við nánari skoðun á tölvumarkaðnum er þetta svið sem er alfarið á valdi fullorðinna. Fullorðnir framleiða fyrir börn og byggja upp markað þar sem þeir stjórna og skapa eftirspurn. Markaðurinn í kringum tölvur og tölvuleiki er gífurlega stór og framboðið af forritum er gríðarlegt. Rannsóknir hafa sýnt að meirihlutinn af forritum sem eru gefin út - eða um 67 % - eru forrit fyrir börn (Haugland (1998) styðst við rannsókn sem gerð er af SPA Consumer Market Report, 1996). Enn frekar hefur það sýnt sig að einungis 20 % af forritunum eru álitin þroskandi og barnvænt efni (Haugland, 1997). Það er meðal annars í ljósi þess að við erum að leitast við að útbúa matsblað til þess að meta forrit sem hægt er að lýsa sem þroskavæn út frá þeim námskenningum sem við höfum fjallað um.

Viðhorf okkar og skoðanir á Internetinu eru breytilegar eftir því frá hvaða sjónarhorni á það er litið sem miðil. Ef Internetið er einungis notað til upplýsingaröflunar eins og bók þá er engin gagnvirkni til staðar. Ef það er líka notað sem t.d samskiptamiðill eða sölumiðill þá er gagnvirkni til staðar, flæðið milli notenda og miðils er í báðar áttir.
Sjónvarpið sem er einungis einstefnumiðill er enn sem komið ríkjandi í barnamenningunni en Internetið sækir á. Koma þess hefur í för með sér að börn geta tekið virkan þátt í samskiptum og geta ráðið hvert ferðinni er heitið og til hvers þau nota miðilinn. Um þetta segir Don Tapscott (1998):

"TV is controlled by adults. Kids are passive observers. In contrast, children control much of their world on the Net. It is something they do by themselves; they are users, and they are active. They donot just observe, they participate. They inquire, discuss, argue, play, shop, critique, investigate, ridicule, fantasize, seek, and inform."


Internetið veitir börnum aðgang að gífurlega stórum upplýsingarbrunni og gagnvirknin sem tölvutæknin býður upp á gefur börnunum möguleika á að bregðast við á eigin forsendum, samkvæmt eigin þekkingu og þar með nota Netið sem sjálfsagðan miðil í menningu sinni.

En ekki er vikið frá því að nauðsynlegt er að vera vakandi fyrir ýmsum áhættuþáttum sem fylgja notkun Netsins og má meðal annars nefna klám, auglýsingar, sölu o. fl.
Sem foreldri og kennari er mikilvægt að gera sér grein fyrir áhættunni og gera ráðstafanir samkvæmt því þegar börnum er veitt aðgangur að Netinu. Til eru margs konar forrit sem sía frá efni sem er óæskilegt fyrir börn og einnig geta foreldrar og kennarar skoðað og metið vefsíður. Það má þó gæta þess að þrengja ekki um of að frelsi barnanna til þess að skapa sína eigin menningu.
Mat á vefsíðum er tímafrek vinna og til eru ýmis samtök sem framkvæma slík möt. Maður verður þó að vera vakandi fyrir því að samtök geta verið undir áhrifum framleiðenda forrita og tölvufyrirtækja o.fl. (Buckleitner, 1999). Það eru einnig til háskólar og kennarasamtök sem meta vefsíður samkvæmt ákveðnum námskenningum og er okkar matsblað dæmi um það.

Heimildir:

Buckleitner, Warren (1999). The State Of Children's Software Evaluation - Yesterday, Today And In The 21st Century. http://www.childrenssoftware.com/evaluation.html (Síðast skoðað 12.06.2001)

Flemming Mouritsen (1998). Child Culture - Play Culture. http://www.hum.sdu.dk/center/kultur/arb_pap/culture.pdf (Síðast skoðað 17.06.2001)

Haugland, Susan & Wright, June L. (1997). Young Children and Technology. A World of Discovery. Massachusetts. Allyn and Bacon.

Haugland, Susan (1998). The Best Developmental Software for Young Children. Early Childhood Education Journal 25,4:247-254.

Jessen, Carsten (1999). Det kompetente börnefælleskab og Computerspil og legekultur. http://www.hum.sdu.dk/center/kultur/arb_pap/kompfaelles.pdf (Síðast skoðað 17.06.2001)

Montgomery, Kathryn (1996). Children in the Digital Age. http://www.prospect.org/print-friendly/print/V7/27/montgomery-k.html (Síðast skoðað 10.06.2001)
Orðabanki íslenskra málstöðvar. http://www.ismal.hi.is/ob/ (Síðast skoðað 17.06.2001)

Tapscott, Don (1998). Growing Up Digital. (bls. 1-54). New York. McGraw-Hill.

Vangsgaard, Kirsten Lybæk (2001). Computerintegrering i börnehaver. http://www.ismennt.is/not/lybaek/verk2/Computerintegrering.html (Síðast skoðað 17.06.2001)

 

Í efnisyfirlit                                                                          Næsta síða

© Björg Vigfúsína Kjartansdóttir - Jóna Björk Jónsdóttir - Kirsten Lybæk Vangsgaard
Síðast 31.07.2006


Efst á síðu