Korpuskóli
Veturinn 2002 - 2003
1. bekkur
Björg Vigfúsína Kjartansdóttir og Elín Guðfinna Thorarensen
11. nemendur í 1. BVK og 13 nemendur í 1. EGT samtals 25 nemendur

Þróunarverkefni í stafainnlögn með aðstoð ævintýra og skapandi starfs
1. bekkur

Inngangur
Mánuðurnir september og október voru aðalega nýttir í að kynnast nemendum, samkennara og húsnæði. Við vorum í nýju húsnæði og ekki búnar að fá allan búnað eða aðstöðu fyrr en í lok september. Það tók tíma að finna hvernig best væri að hafa hlutina og koma öllu fyrir. Nemendurnir voru að hefja skólagöngu og vildum við gefa þeim tíma til að átta sig á aðstæðum og kynnast okkur og bekkjarfélögum.

Meginmarkmið þróunarverkefnisins
· að auka færni kennara í kennslu samkvæmt fjölgreindarkenningu Howard   Gardner.
· að kenna
nemendum til skilnings

Markmið okkar voru:
·
að tengja stafainnlögnina ævintýrum.
· að stafainnlögnin sé skapandi og gefandi.
· að auka fjölbreyttni og vinnugleði nemenda og kennara.

Kennsluaðferðir
· Einstaklingsverkefni
· Hópverkefni
· Samvinnunám
· Paravinna


Leiðir:
· að finna ævintýri, myndbönd, hljóðsnældur eða -diska sem tengjast hverjum   bókstaf.
· að vinna skapandi verkefni í tengslum við hvern bókstaf
· að
vinna verkefni í úrklippubók og vinnubók.

September 2002
Í september voru allar innlagnir sameiginlegar í báðum bekkjum og farið eftir kennsluleiðbeiningunum að mestu ley
ti. Við notuðum handbrúðu, apann Lúlla. Nemendur kenndu honum stafina og gáfu honum banana sem var með bókstafnum á, sem við vorum að læra.

Október 2002
Um miðjan október tengdum við söguna um Rummung ræningja við stafainnlögnina R, r og virtist það falla vel í kramið. Sagan var spennandi og haldið áfram að lesa hana í nestistímum. Við vorum enn að slípast saman bæði nemendur og kennarar.

Nóvember 2002
Við horfðum á myndband um fiðrildi í stafainnlögninni F, f. Nemendur teiknuðu síðan mynd af ferli fiðrildisins, þ.e. frá eggi til, púpu og fiðrildis. Myndin var unnin með vaxlitum og síðan var teiknað með svörtum túss í kring. Líklega hefði myndin orðið mun skemmtilegri ef hún hefði verið teiknuð með trélitum. Næst tókum við fyrir M, m og sáum við myndbandið um mýsnar Óskar og Helgu þá teiknuðum við mús sem var sett á klemmu. Með bókstafnum B, b lásum við söguna um Búkollu og þau teiknuðu mynd og gerðu klippimynd úr því.

Desember 2002
Í desember voru tvær stafainnlagnir annars vegar P, p sem við tengdum við söguna um Sætabrauðsdrenginn.Við bökuðum piparkökur og poppuðum örbylgjupopp. Piparkökurnar urðu síðan hluti af jólagjöf nemenda til foreldranna.

Hins vegar tókum við fyrir J, j . Við byrjuðum að tala um jólasveinana og göngustafina þeirra; að þeir væru eins og J á hvolfi. Síðan teiknuðum við jólasvein sem var úr tvöföldu j. Teiknuðum andlit og settum ullarkembu fyrir skegg. Við völdum einnig að horfa á myndband um jólaævintýri Önnu Bellu. Samvinna kennara var farin að ganga betur og allir orðnnir öruggari með sig, bæði fullorðnir og börn.

Stefnan kennaranna eftir áramót var:
· að vera mun markvissari í vinnu
· að skoða leiðir fyrir námsmat
· að fara í vettvangsheimsóknir í Waldorfsskóla og Háteigsskóla

Námsmat
· Nemendur meta eigin vinnu með heimspekilegum umræðum og brosköllum
· K
ennarar skrifa dagbók um hvernig gekk og hvaða tilfinningu þeir hafa fyrir þessari leið.

Janúar 2002
Við fórum í heimsókn í Háteigsskóla í 1. bekk; til Ragnheiðar og Jóhönnu.
Þar var mjög vel tekið á móti okkur. Heimsóknin var mjög uppörvandi fyrir kennarana og sérstaklega áhugavert að sjá hvernig þær leggja áherslu á skapandi vinnu og heildstæða móðurmálskennslu. Ragnheiður og Jóhanna senda nemendur heim með bók fyrir hvern bókstaf þar sem þær hafa tengt hann við stærðfræði og íslensku. Það var athyglisvert að sjá að þær lögðu ekki mikla áherslu á að skrifa bókstafinn oft í samanburði við það sem við höfum gert, (þ.e. 4 línur heimanámsbók, í úrklippubók og í vinnbók sem fylgir lestrarbók). Nemendur Ragnheiðar og Jóhönnu skrifa hvern staf í vinnbók sem fylgir lestrarbókinni og í heimanámsbók. Einnig er eitthvað skapað í tengslum við hvern bókstaf. Þær leggja bókstafina ekki inn á ákveðnum dögum heldur að loknu hverju verkefni sem unnið er að. Þær vinna með textann í lestrarbókinni með því að setja hann á glæru og nemendur fá t.d að finna ákveðin orð. Kennararnir skrifa textann stundum á renninga og leika sér síðan að því að finna orð eða bókstaf.

Bókstafir sem unnið var með í janúar eru H, h og lásum við söguna um Hans og Grétu. Við teiknuðum H holan og bjuggum til mynstur með trélitum inn í hann. Síðan lærðum við Ú, ú og lásum söguna um úlfinn og kiðlingana sjö, við teiknuðum úlf í úrklippubókina okkar.
Við lærðum um É,é og lásum söguna um Litlu stúlkuna og eldspýturnar. Við tengdum söguna við stærðfræði og límdum eldspýtur á svart karton (stærð A5) sem var mótað eins og É. Í tengslum við orðið ég teiknuðu nemendur sjálfsmynd af sér (ég) á karton og festu á álpappír eins og þau væru að horfa á sjálfa sig í spegli. (Sjá myndir). Við teiknuðum líka él á svart karton með olíulitum.
(Heimanámsbækurnar er að finna á Netinu í pub. formi).

 

Febrúar 2002
Í byrjun febrúar lærðum við N,n og lásum söguna um Örkina hans Nóa. Nemendur unnu verkefni heima tengt bókstafnum. Við máluðum skip, sjó, regndropa, dýr, Nóa og fjölskyldu (sjá myndir). Nemendum beggja bekkja var blandað saman og skipt í 6 hópa. Við bjuggum til bókstafinn úr núðlum sem við límdum á karton.

Í annarri vikunni lærðum við bókstafinn D, d og lásum tvær sögur, Litli Drekinn og Drekastelpan. Þá límdum við doppur úr gatara á blað og mótuðum D,d.

Næst lærðum við bókstafinn G, g lásum söguna um Gosa og ræddum um samviskuna. Við límdum garn á blað og mótuðum G, g og teiknuðum síðan stóran Gosa sem var settur saman með bréfanöglum (splitti).

Í lok mánaðarins lærðum við U, u lásum söguna Myrkfælna uglan og teiknuðum uglu úr U og límdum á hana ullarkembur, tölur og gogg úr appelsínugulum pappír.

Mars 2002
Unnið var með V, v og sagan um Litlu ljót lesin. Við vatnslituðum V, v á vatnslitapappír og gerðum við ýmsar tilraunir með vatn.

Þá var komið að E, e og við lásum söguna um Eggjakarlinn. Við límdum eggjaskurn á blað og mótuðum E, e. Einnig var sagan um eggjakarlinn tengd við verkefni um dýr og farið í heimsókn í Húsdýragarðinn. Búin voru til dýr í þrívídd úr leir og dýragarð úr pappír og tréplötu (sjá myndir). Við skiptum nemendum í 4 hópa; fuglar, húsdýr, villt dýr og dýragarður. Við fórum líka í dýraleik þar sem nemendur léku mismunandi dýr og hlustuðum á tónlist með dýra og náttúruhljóðum.

Við lærðum X, x , og við lásum söguna um Jóa og baunagrasið. Límdum baunir á blað og mótuðum x úr þeim. Sáðum mismunandi fræum; eplafræ, appelsínufræ, melónufræ, karsafræ o.s.frv. og fylgdumst með hvaða fræ voru fljótsprottin og mældum síðan vöxtinn. Karsafræin, fræið Borðaðu mig og Kanarífletta voru fljót sprottnust.

Í lok mánaðarains lærðum við Þ,þ, og við lásum söguna Þyrnirós og sungum sönginn um Þyrnirós. Við fingramáluðum Þ,þ með sápuspænumá blað (A5).

 

Apríl 2002
Við lærðum Ð,ð og lásum söguna um Lötu stlepuna sem þurfti að baða. Síðan gerðum við bókstafinn með þeyttum sápuspænum á karton (A5).
Að loknu páskaleyfi lærðum við Ö,ö og gerðum ö úr örvum og nýttum okkur hugtökin þríhyrningur og rétthyrningur í gerð örvanna sem voru holar.

Maí 2002
Við lærðum Y,y og Ý,ý og lásum söguna Rebbabræður eignast vini. Síðan bjuggum við til bókstafinn úr yddi sem við vorum búin að safna okkur. . Næsti bókstafur var Æ,æ Lesið var ævintýrið um rauðhettu og úlfinn. Dagurinn þróaðist þannig að við unnum ekkert skapandi með þennan staf. Nú var komið að því að læra um sérhljóðaparið ei og ey og gerðum við mynd af eyju. (Sjá mynd). Að lokum lærðum við um au og lásum söguna um Lagnfeta, Jötunn og Arnarauga. Í lok mánaðarins bjuggum við til bækur úr öllum heimanámsbókunum og vakti það mikla lukku hjá nemendum.
Það kom í ljós að nemendur og foreldrar hefðu viljað fá heimanámasbækurnar aftur heim til að fá umsagnir kennaranna.

Lokaorð
Við hefðum viljað sjá okkur vinna dýpra með fjölgreindarkenningu Gardners. Það hefði mátt kynna greindirnar átta fyrir nemendum þ.e. setja hana upp sýnilega og tala um verkefnin út frá fjölgreindarkenningunni. Okkur fannst við vera heftar af því að kennslustofan og aðstaðan var það opin að við fundum okkur ekki almennilega fyrr en undir vorið. Að mörgu leyti voru það við sjálfar sem létum þetta hefta okkur.
Í tengslum við nám til skilnings hefðum við viljað gefa þeim einstaklingum sem eru styðst á veg komnir það einstaklingsmiðaðnám sem þeir þurftu. Sama má segja um þá nemendur sem þurftu meira af krefjandi verkefnum.

Þær kennsluaðferðir og leiðir sem við settum okkur teljum við hafa komist til skila. Í endurmati okkar um áramótin ætluðum við að vinna markvissari vinnu og fannst okkur það skila sér. Hvað varðar leiðir fyrir námsmat stóðum við okkur ekki, þar sem matið var ekki eins og við ættluðum okkur. Dagbókarskrif um hvað við gerðum kemur fram í skýrslunni. Vettvangsheimsókn í Háteiggskóla var farin og var sú heimsókn mjög gefandi. Það reyndist ekki auðvelt að komast í Waldorfsskóla og slepptum við því.

Stefnan með þróunarverkefni (næsta vetur 2003 - 2004) fyrir 2. bekk er að halda áfram að vinna með ævintýri, samþætta þau við námsgreinar til að gera námsefnið meira skapandi og áhugavert. Gera kennslustofuna að ævintýraheim. Kennari 2. bekks næsta vetur hefur sterka trú á að ef kennslustofan er ævintýraheimur þá sé meiri gleði og ánægja ríkandi á meðal nemenda og kennara.
Í vinnu okkar með fjölgreindarkenninguna erum við komnar á næsta stig þar sem við áttuðum okkur á að við hefðum getað farið aðra leið en við gerðum í vetur, til dæmis með því að gera nemendur meðvitaða um greindirnar og hafa ákveðið val á úrlausnum verkefna. Að takast á við þróunarverkefni er gott, það er mátulega ögrandi og um leið gefandi að takast á við vinnuna. Í þessum kafla eigum við að gera grein fyrir hvernig við viljum miðla reynslu okkar til annarra. Við sjáum fyrir okkur að við kynnum verkefnið innan skólans fyrir hvert annað á kennarafundi. Næsta skref er að halda áfram með þessa vinnu næsta vetur til að koma með nýjar hugmyndir að kynningum á verkefnunum. Okkur langar að benda á að verkefni 1. bekkjar liggur á Netinu og er öllum opin sem vilja skoða það. Þróunarskýrslan gæti öll verið á Netinu og þeir sem hafa áhuga gæti sótt sér upplýsingar um verkefnin. Það er ekki fyrr en meiri þróun hefur átt sér stað að hægt er að fara með fyrirlestra í aðra skóla.

Ítarefni

Sögur og ævintýri fyrir nemendur

  1. Rummungur ræningi
  2. Myrkfælna uglan eftir Jill Tomlissin, (gefin út hjá Ísafold).
  3. Litla ljót. Lestrarbók Nýr flokkur 2. hefti Námsgagnastofnun 1990
  4. Þyrnirós.
  5. Búkolla. Nú skyldi ég hlæja... Félag íslenskra bókaútgefanda og prentsmiðjan Oddi hf 1999
  6. Sætabrauðsdrengurinn. Litla gula hænan. Námsgagnastofnun 1996
  7. Hans og Gréta. Grímsævintýri, Vaka Helagfell 1998
  8. Úlfurinn og kiðlingarnir sjö. Grímsævintýri. Vaka Helgafell 1998
  9. Litla stúlkan með eldspýturnar.
  10. Örkin hans Nóa. Sögustund. Elín Jóhannsdóttir. Skálholtsútgáfan.
  11. Eggjakarlinn. Ótruleg eru ævintýri, Sigríður J. Þórisdóttir. Námsgagnastofnun.
  12. Jói og baunagrasið. Prentsmiðjan Leifur.
  13. Mikki og baunagrasið. Vaka Helgafell. 1989 Disney - klúbburinn
  14. Litli Örn í veiðiferð. Vaka Helgafell. 1989 Disney - klúbburinn
  15. Litli Drekinn. Heather Amery. Skjaldborg 1996
  16. Drekastelpan. Sigrún Eldjárn. Mál og menning 2000
  17. Rebbabræður eignast vini. Sigríður T. Óskarsdóttir. Hjá GuðjónÓ hf 1994
  18. Lagnfeta, Jötunn og Arnarauga. Ævintýri Æskunnar.

Myndbönd

  1. Jólaósk Önnu Bellu; Bergvík, 1997 (Einkaeign)
  2. Óskar og Helga (Námsgagnastofnun- útleiga)
  3. Fiðrildið (Námsgagnastofnun- útleiga)
  4. Gosi; (Walt Disney útgáfa - Eign skólans)

Geisladiskar

  1. Nature; Happy baby

Fæðslubækur fyrir kennarana

  1. Ásta Lárusdóttir, Hafdís Sigurgeirsdóttir, Magnea Ingólfsdóttir (1994) Lestrarnámskeið.Námsgagnastofnun.
  2. Björgvin Jósteinsson, Kristbjörg Eðvaldsdóttir, Þórir Sigurðsson (1992) Skrift í grunnskóla, kennsluleiðbeiningar. Námsgangastofnun.
  3. Björgvin Jósteinsson, Ragnheiður Hermannsdóttir og Þóra Kristinsdóttir (1993). Kennsluleiðbeiningar með Við lesum A. Námsgagnastofnun.
  4. Ragnheiður Gestsdóttir og Ragnheiður Hermansdóttir (1993).Kennsluleiðbeiningar með Lesum saman; Námsgagnastofnun
  5. Guðmundur B. Kristmundsson.(1992) Börn og ritun. Handbók um kennslu ritunar. Námsgangastofnun.
  6. Ingvar Sigurgeirsson (2002). Litróf kennsluaðferðanna. Æskan.
  7. Lestur er lykill að þekkingu og betri framtíð. Námsgagnastofnun.
  8. Lestur - mál - Ritröð kennaraháskóla Íslands og Iðunnar VIII 1987
  9. Rósa Eggertsdóttir. Fluglæsi - Áherslur og stefnumörkun og aðferðir í lestrarkennslu. Skólaþjónusta Eyþings.