Leikurinn

Meðal þeirra fræðimanna sem við horfum til þegar settar eru fram kenningar um leikinn má nefna menn eins og Piaget, Dewey og Vygotsky. Leikur sem námsleið samræmist vel hugmyndum okkar um leiðir í þróun hugbúnaðar fyrir börn. Eins og kemur fram í Aðalnámskrá leikskóla (1999) eru börnin ekki bara að kynnast eigin tilfinningum og annarra, heldur eru þau líka að læra samvinnu, tillitsemi og samskiptareglur. Leikurinn er eðlilegasta lífstjáning barnsins. Leikurinn hefur áhrif á þróun sjálfsins og sjálfsmynd þess. Því er nauðsynlegt að barnið fái frið og ró þegar það er í leik. Í hlutverkaleik styrkist sjálfsmynd þess. Það áttar sig á sjálfu sér í gegnum leikinn. Leikur barnsins endurspeglar reynsluheim þess, menninguna sem það býr við og samfélagið. Í gegnum leikinn er barnið að lifa sig inn í atburði sem eru að gerast í kringum það. Það rifjar upp það sem það hefur séð, heyrt og upplifað. Ímyndunarafl þess fær að ráða ferðinni, breyta persónum og atburðum eftir því hvernig það hefur skilið og upplifað tilfinningar sínar. (Aðalnámsskrá leikskóla,1999)


Í gegnum sjálfsprottinn leik er barn:

  • "sjálfrátt og sjálfstætt
  • stjórnandinn og skapar leikinn úr eigin upplifunum og hugarheimi
  • að taka ákvarðanir og leysa úr vandamálum
  • einbeitt, það gleymir stund og stað
  • upptekið af augnablikinu, það er ferlið sem skiptir máli
  • laust við utanaðkomandi reglur aðrar en þær sem það setur sjálft eða í samráði við leikfélagana"
    (Aðalnámsskrá leikskóla, 1999)


Í greininunum Playing to learn (Mann, Shakeshaft, Kottkamp & Becker, (2000))og í Following Children's Lead in the Dance of Real Learning kemur fram að þrátt fyrir að það sé löngu þekkt að börn læri í gegnum leik hafa skólarnir samt í viðleitni sinni til að bæta árangur, stytt frímínútur,aukið þagnir og skorið niður val. En getur verið að þeir hafi verið að leita námsleiða úr rangri átt? John Dewey tók eftir því að það var mögulegt að leika sér en vera samt alvarlegur af því að leikurinn er kjörsvið meðvitundarinnar. Leikur segir hann er ekki það sama og "óvirka frænka" hans, afþreyingin. Börn eru að leika en þau eru áhorfendur afþreyingarinnar. Þetta spakmæli að börn læra í gegnum leik virðist bara vera þekkt á yngri stigum náms. Rannsóknin sem greinin fjallar um byggðist á þessum hugmyndum og einnig á því að aðrar rannsóknir hafa sýnt að það eru
ekki skólarnir sem hafa úrslitaáhrif um nám barnanna heldur aðstæður á heimilum Rannsóknin tók til 6 grunnskóla, 3 tilraunaskóla og 3 viðmiðunarskóla. Tilraunskólarnir notuðu gagnvirkt efni sem framleidd var af Lightspan Partnership,Inc. Bekkjunum var fylgt eftir í tvö ár. Þetta efni sem var sniðið að námskrám skólanna var fyrst unnið í skólanum og síðan tekið heim til nánari útfærslu oft með foreldrum þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar voru í stuttu máli að nemendur í tilraunskólanum sýndu meiri framfarir en samanburðarhóparnir. Rannsakendur töldu að skólarnir gætu bætt sig á sviði upplýsingatækni. Þeir töluðu líka jákvætt um leikjatölvur sem eru víða til á heimilum og kosta minna en PC tölvur. Þetta finnst okkur nýtt inn í umræðuna um námsefni og kannski væri ekki óeðlilegt að skoða hvað er til af þroskandi leikjum þarna. Heimavinnan gæti verið að komast í gegnum eitt borð í Tarzan! Í rannsókninni var notað gagnvirkt námsefni Lightspan Partnership.Inc http://www.lightspan.com/. Á Íslandi er hægt að kaupa efni frá Skólavefnum og einnig er ýmislegt að finna á Skólatorginu og heimasíðum skóla. Eins er til fullt af sniðugum forritum sem hægt er að nýta í skólum landsins með markvissari tengingu við Aðalnámskrár leik- og grunnskóla.

 

Ef barnið er svangt þá gefur þú því fisk en réttast væri að fá því veiðistöng og kenna því að afla sér matar. Papert


Heimildir:

Aðalnámskrá leikskóla (1999). Menntamálaráðuneytið. Reykjavík.

Leikur og leikgleði. (1992). Afmælisrit Valborgar Sigurðarsóttur. Fósturfélag Íslands. Reykjavík.

Lightford, Elizabeth (1996). Child & Family. Following Children´s Lead in the Dance of Real Learning. http://www.cfc-efc.ca/docs/00000091.htm (Síðast skoðað 8.08.2001)

Mann,D., Shakeshaft, C., Kottkamp,R. & Becker,J. (2000). Electronic School. Playing to learn. http://www.electronic-school.com/2000/09/0900f4.html (Síðast skoðað 7.07.2001)


Í efnisyfirlit                                                                      Næsta síða

© Björg Vigfúsína Kjartansdóttir - Jóna Björk Jónsdóttir - Kirsten Lybæk Vangsgaard
Síðast 31.07.2006

Efst á síðu